• dc3bw

Maríusjóður

MINNINGARSJÓÐUR MARÍU JÓNSDÓTTUR

Minningarsjóður Maríu Jónsdóttur flugfreyju var stofnaður 1. nóvember 1963, daginn sem hún hefði orðið 31 árs. María var flugfreyja hjá Flugfélagi Íslands frá 1956 og hafði verið formaður Flugfreyjufélags Íslands síðustu árin. Hún fórst í flugslysi í aðflugi að Fornebu flugvelli í Osló, á páskadagsmorgun árið 1963.
Allir sem um borð voru, 12 að tölu, fórust.
Minningarsjóðurinn var stofnaður af foreldrum Maríu.
Hugsun þeirra að baki stofnun sjóðsins var annars vegar að halda minningu dóttur sinnar lifandi en þó fyrst og fremst að til væri sjóður sem styrkti flugfreyjur eða börn þeirra ef til annars flugslyss kæmi. Einnig yrði hægt að sækja í sjóðinn greiðslur vegna langvarandi veikinda barna flugfreyja.
Tekjur sjóðsins eru nær eingöngu af sölu minningarkorta en auk þess hafa félagsmenn FFÍ styrkt sjóðinn með árlegu framlagi sínu.
Minningarsjóður Maríu Jónsdóttur mun vera eini minningarsjóðurinn hjá stéttarfélögum innan flugsins.
Stjórn sjóðsins nú skipa:
Sigríður Ása Harðardóttir, formaður FFÍ
Orri Þrastarson, gjaldkeri FFÍ
Sigurlaug Halldórsdóttir, flugfreyja

Minningarkortin fást hjá eftirtöldum aðilum:
Sigurlaugu Halldórsdóttur – This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Á skrifstofu Flugfreyjufélags Íslands sími 561-4307 eða This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Svölurnar - tilgangur

Tilgangur félagsins er tvenns konar; í fyrsta lagi að viðhalda kunningsskap og vináttu starfandi og fyrrverandi flugfreyja og flugþjóna og í öðru lagi að láta eitthvað gott af sér leiða.

Allir þeir sem starfa, eða hafa starfað, sem flugfreyjur eða flugþjónar eru velkomnir í félagið. Því fleiri Svölur því öflugra verður starfið og unnt að veita fleiri góðum málum lið.

Fundir félagsins eru kvöldverðarfundir, skemmtilegir og fræðandi, haldnir fyrsta þriðjudag hvers mánaðar yfir vetrarmánuðina frá október fram í maí, að janúarmánuði undanskildum. Sumarferð Svalanna er venjulega farin í byrjun júní.

Undanfarin ár hefur aðalfjáröflunarleið félagsins verið sala jólakorta, gjafakorta og minningakorta. Frá því félagið var stofnað hafa Svölurnar styrkt fjölmörg félög og einstaklinga. Þessi þáttur starfsins er mjög gefandi og ánægjulegt að félagið geti lagt sitt af mörkum til góðra mála.

Svölurnar styrkja aðeins þá einstaklinga og félög sem ekki njóta opinberra styrkja.

Svölurnar - sagan

Árið 1974 hittust nokkrar Loftleiða flugfreyjur og viðruðu þá hugmynd að stofna félag fyrrverandi og starfandi flugfreyja. Eins og konum einum er lagið var drifið í fyrsta fundi 14. mars það sama ár og formlega var svo félagið stofnað þann 5.maí 1974. Starfsárið hófst svo með mánaðarlegum fundum um haustið og var flugfreyjum Flugfélags Íslands boðið að vera með og fljótlega varð félagið opið öllum sem hafa borið starfsheitið flugfreyja eða flugþjónn.  Þetta sama haust var félaginu gefið þetta fallega og táknræna nafn Svölurnar.

Svölurnar byggja starf sitt á þeirri hugmynd að efla og viðhalda góðum kynnum auk þess að fræðast og skemmta sér um leið og þær láta gott af sér leiða. Félagið var frá upphafi góðgerðarfélag og hefur alla tíð haldið úti öflugri fjáröflunarstarfsemi .  Aðalfjáröflun Svalanna er útgáfa jólakorta sem hafa ýmist verið hönnuð af listfengum Svölum eða velunnurum þeirra og hafa allir gefið vinnu sína. Að sjálfsögðu leggja svo félagskonur fram ómælda vinnu við pökkun og dreifingu kortanna og allir sölustaðir selja kortin án þóknunar.  Í gegnum árin hefur ýmislegt annað verið gert til að afla fjár svo sem flóamarkaðir, bingo, happdrætti og 1. maí kaffi. Auk þess greiða Svölurnar félagsgjöld og valkvæð styrktarfélagsgjöld. Allt þetta hefur gert félaginu kleift að kaupa alls kyns tæki fyrir  stofnanir og spítaladeildir og veita styrki til framhaldsnáms í þágu þeirra sem minna mega sín í þjóðfélaginu. Of langt yrði að telja upp allar þær milljónir sem Svölurnar hafa látið af hendi rakna en þær hafa m.a.styrkt MS félagið og MND félagið myndarlega undanfarin ár.

Tekið er vel á móti nýjum Svölum og og það er góð tilfinning að þessi  öflugi hópur láti gott af sér leiða til samfélagsins um leið og þær njóta skemmtilegra samvista. Hér á síðunni er hægt að gerast félagi, sjá  upplýsingar um næstu fundi og annað er viðkemur starfseminni.